A A A

ÖLDRUNARDEILD - Upplýsingar um deildina

 

Upplýsingar þessar eru ætlaðar sjúklingum og aðstandendum þeirra sem vistast á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HV). Starfsfólk deildarinnar vill bjóða ykkur velkomin til dvalar og samstarfs.

 

Fundir með aðstandendum

eru haldnir eftir því sem þurfa þykir. Fljótlega eftir innlögn er gott að setjast niður og ræða saman og eru þeir fundir hugsaðir til að efla tengsl, miðla fróðleik og skapa umræðu. Það er mikilvægt fyrir aðstandendur og sjúklinginn að viðhalda tengslum við þær nýju aðstæður sem verða við innlögn og vistun á öldrunardeildinni. Hjúkrunarfólk, hversu gott sem það er, getur aldrei komið í stað fjölskyldu og vina.

 

Stofugangur og viðtalstímar

Stofugangur lækna er á þriðjudögum og föstudögum kl. 8:30 og eru læknar deildarinnar til viðtals eftir samkomulagi. Alla virka daga frá kl. 8-16 er hjúkrunarfræðingur staðsettur á deildinni. Á kvöldin og um helgar sinnir sami hjúkrunarfræðingurinn bráðadeild og öldrunardeild. Við hvetjum ykkur eindregið til að hafa samband þegar þörf er á.

 

Endurhæfing

Einn sjúkraþjálfari sinnir deildinni hverju sinni. Hann tekur sjúklinga í meðferð eins og þörf er á samkvæmt faglegu mati. Einnig sér starfsfólk frá endurhæfingardeildinni um daglega gönguþjálfun. Hópleikfimi er einu sinni í viku  kl. 11 í matsal á 2. hæð.

 

Iðjuþjálfun

er starfrækt í kjallara sjúkrahússins og vinna þar iðjuþjálfar og aðstoðarmenn þeirra. Þeir sem vilja geta farið niður í vinnustofu sem er opin alla virka daga frá kl. 14-17. Þeir sem ekki geta farið niður geta þó notið þjónustu þeirratvisvar til þrisvar í viku, en þá er komið upp á deildina og lesið og sungið með sjúklingunum. Einu sinni í mánuði er svo vöfflukaffi í matsalnum sem iðjuþjálfun sér um og er oft boðið upp á skemmtiatriði.

 

Þvottur á einkafatnaði

Hér á deildinni er boðið upp á að efnalaugin á Ísafirði sjái um venjulegan þvott á einkafatnaði sjúklinga (ekki hreinsun) og þarf ekki að greiða sérstaklega fyrir það. Ef þvegið er í efnalauginni, þá er úthlutað fatanúmeri til merkingar á fatnaði. Fatnaðurinn er þá merktur af aðstandendum og með aðstoð starfsfólks.

Aðstandendur mega auðvitað þvo þennan fatnað heima og mælum við reyndar með að allur viðkvæmur þvottur sé þveginn af aðstandendum, ef aðstæður leyfa.

 

Tengiliður sjúklings

Sjúklingi er valinn tengiliður sem er sjúkraliði eða annar starfsmaður deildarinnar. Markmið hans er m.a. að aðstoða sjúkling og aðstandendur um hvaðeina sem vantar af fatnaði, persónulegum hlutum og öðrum nauðsynjum og hefur hann samband ef á þarf að halda. Einnig er sjálfsagt að leita til tengiliðarins með annað sem upp getur komið. Deildin getur ekki borið ábyrgð á fatnaði og því er mikilvægt að hann sé vel merktur og spariföt jafnvel tekin heim. Aðstandendur eru hvattir til að fylgjast með fatnaðinum og fjarlægja það sem ekki er í notkun.

 

Hársnyrting - Fótsnyrting

Hársnyrtir kemur á u.þ.b. 2ja mánaða fresti og klippir, litar og setur permanent fyrir þá sem þess óska/þurfa. Einnig kemur fótaaðgerðarfræðingur reglulega. Fyrir þessa þjónustu þarf sjúklingurinn  að borga. Að öðru leyti sér starfsfólk deildarinnar um að snyrta sjúklingana, setja rúllur og greiða.

 

 Helgistund

er á þriðjudögum kl. 16 í kapellunni sem staðsett er í kjallaranum og eru aðstandendur hvattir til að koma og taka þátt.

 

Matmálstímar

Morgunmatur er á milli kl. 8:30 og 9:30. Hádegismatur er kl. 11:30, en kl 12:00 á sunnudögum. Miðdegiskaffi er á tímabilinu frá kl 14:00 til 14:30 og kl 16 er gefin drykkjarhressing. Kvöldmatur er kl. 17:30 og kvöldkaffi upp úr kl. 20:00. Vatn og aðrir drykkir, eða viðbit á milli mála er veitt eins og þurfa þykir í hverju tilfelli fyrir sig.

 

Deildin er alltaf opin fyrir heimsóknir

Þó skal bent á að mesti erillin við hjúkrun, umönnun og þrif er fyrir hádegið. Ekkert er því til fyrirstöðu að sjúklingar fari út í bíltúr, göngutúr, heimsóknir, á tónleika og sýningar, út á svalir o.s.frv. Á sumrin er tilvalið að fara út á verönd fyrir framan matsal starfsmanna á 1. hæð þegar veður er gott. Við hvetjum svo aðstandendur til að koma sem oftast í heimsókn og gleyma ekki að láta starfsmenn vita, þegar farið er með sjúklinga út af deildinni.

 

Þagnarskylda

Allt starfsfólk stofnunarinnar er bundið þagnarskyldu gagnvart sjúklingum og samskiptum sínum við aðstandendur. Við viljum eindregið mælast til þess að það sem sjúklingur og aðstandendur sjá og heyra sér óviðkomandi á deildinni verði ekki að umræðuefni utan hennar.

 

Símanúmer

öldrunardeildarinnar er 450 4535.

Símanúmer bráðadeildarinnar er 450 4523 og 450 4565

Símanúmer deildarstjóra bráða- og öldrunardeildar er 450 4536 og netfang er rannveig@hvest.is.

 

Endursk. í ágúst 2012

Vefumsjón